Færsluflokkur: Löggæsla

Leiðsögumaður eða kaldur karl í krapinu?

„Sjálfur hef ég 15 ára reynslu af jöklinum,“ sagði Gylfi Sævarsson framkvæmdastjóri Vélsleðaleigunnar ehf. í Kastljósi í kvöld. Vélsleðaleigan skipulagði afdrifaríka vélsleðaferð á Langjökul á sunnudag þar sem skosk mæðgini urðu viðskila við hópinn í aftakaveðri og litlu sem engu skyggni.

Í Sjónvarpsfréttum í kvöld var sagt frá því að afar litlar kröfur eru gerðar til stofnenda fyrirtækja með vélsleðaferðir. Nær hver sem er getur stofnað afþreyingarfyrirtæki og farið með fólk í vélsleðaferðir á jökli. Sá hinn sami þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði;

·         vera orðinn 20 ára

·         vera lögráða

·         hafa búsetu á Ísland

·         hafa ekki hlotið dóm fyrir atvinnurekstur sl. fjögur ár.

Engar kröfur eru gerðar til viðkomandi um þekkingu á jöklum eða ferðum þangað.

Hver sem er getur kallað sig leiðsögumann

Fararstjórarnir þrír í umræddri ferð kalla sig leiðsögumenn án þess að hafa hlotið til þess menntun. Án þess að leggja dóm á hæfileika og reynslu fararstjóranna í viðkomandi ferð af jöklaferðum er mjög bagalegt þegar fólk ruglast á þessum starfsheitum því það hefur ítrekað komið óorði á fagmenntaða leiðsögumenn að ósekju.

Evrópustaðall gerir skýran greinarmun á starfsheiti fararstjóra og leiðsögumanna. Leiðsögumenn þurfa að ljúka sérhæfðu námi í leiðsögn um það svæði sem þeir leiðsegja á sem er viðurkennt af viðeigandi yfirvöldum. Fararstjórar þurfa enga menntun.

Nær 300 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leit á jöklinum. Fólkið fannst heilu og höldnu eftir um 8 klukkustundir frá því það varð viðskila við hópinn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband