Eru fjöldaferðamannastaðir slæmir?

Hvers vegna eru leiðsögumenn ofurnæmir fyrir þróun fjöldaferðamennsku á Íslandi á meðan almenningur og stjórnvöld kæra sig kollótt?

Margir leiðögumenn kollegar mínir hugsa með hryllingi til Geysissvæðisins í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi vegna þess að staðurinn er í mikilli niðurníðslu og í öðru lagi vegna þess að hrikalegur fjöldi ferðamanna suma daga dregur úr mjög úr jákvæðri upplifun af svæðinu.

Í hádeginu suma daga á sumrin spígspora um svæðið allt að 6.000 manns, langflestir um hádegisbilið milli klukkan 11 og 15.

Í mínum huga er Geysisvæðið skólabókardæmi um fjöldaferðamannastað (e. mass tourism attraction) en aldrei er minnst á þessa staðreynd í upplýsingar- og kynningarefni Ferðamálastofu né söluaðila ferðaþjónustu, væntanlega vegna þess að fjöldaferðamennska (e. mass tourism) er neikvæð í hugum ferðamanna, einkum þeirra sem fara gagngert til lands til að upplifa náttúruna eins og um 80 prósent erlendra ferðamanna sem koma hingað til lands segjast gera.

Póstmódernísk skrif lýsa gjarna Amerískum nútíma-ferðamannastöðum á þann hátt að þeir endurspegli hluta af póstmódernískum kenningum í því að leggja áherslu á manngerða og óekta hluti, skírskota til fjöldans, líkja eftir sögulegum staðreyndum, og leitast við að sýna fullkomna útgáfu af þeim sjálfum.

Þetta er þröng og breyngluð sýn sem ekki tekur vinsældir og fjölda slíkra staða í Amerísku landslagi með í reikninginn, sem kallar á svar við þeirri spurningu hvaða merkingu staðirnir hafa í hugum þátttakenda, því slík ófræging amerískrar fjöldamenningar og fjöldaferðamannastaða þröngvar fram sjónarmiðum elítu sem er blind fyrir öðru en eigin hugmyndum (Edward Bruner, 1994).

Leiðsögumenn sem ég hef rætt við á förnum vegi eru flestir ef ekki allir sammála því að fjöldi ferðamanna á Geysissvæðinu er alltof mikill suma daga. Þeir hafa ennfremur fylgst með stækkun verslunar og hótels, byggingu smáhýsa, sundlaugar og gestastofu sem líkir eftir sögulegum staðreyndum - sem e.t.v. leitast við að sýna fullkomna útgáfu af Geysisvæðinu.

Þótt leiðsögumenn séu í grundvallaratriðum á móti uppbyggingu sem hér er lýst þá er þeim ljóst að ákveðin þjónusta er nauðsynleg á vinsælum ferðamannastöðum.

Leiðsögumenn leggja mikla áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir á fjöldaferðamannastöðum eins og á Geysissvæðinu í því sjónarmiði að fyrirbyggja slys að svo miklu leyti sem það er hægt, og til þess að vernda náttúruna.

Ástandið við Geysi er svo slæmt að sumir leiðsögumenn eru mjög ósáttir við að stoppa þar - en gera það samt vegna þess að staðurinn er rækilega kynntur í leiðarlýsingu.

Hvers vegna ætli leiðsögumenn séu svona ofurnæmir fyrir þróun fjöldaferðamennsku á Íslandi á meðan almenningur og stjórnvöld kæra sig kollótt?

Ef svo er - hvað er það sem veldur?

Mig grunar að margir Íslendingar sem ferðast um landið í sumar komi til með að ranka við sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband