Friðland hvala

Ég legg til að stofnað verði friðland hvala sem fyrst á þeim svæðum þar sem skipulegar hvalaskoðunarferðir fara fram.

Stofnun friðlands sýndi á óyggjandi hátt vilja stjórnvalda til þess að vernda hvali um ókomna framtíð, bætti ímynd Íslands erlendis, verndaði hagsmuni ferðaþjónustuaðila og uppfyllti væntingar ferðamanna. Við fyrstu sýn getur virst að stofnun friðlands sé einungis grænþvottur á hvalveiðistefnu stjórnvalda og það að vernda nokkur svæði en leyfa veiðar á öðrum sé tvískinnungsháttur. Fordæmi eru þó fyrir slíku erlendis og hefur gefist vel.

Í markaðsfræði er oft talað um að vörumerki hafi ákveðna ímynd og sum vörumerki seljist betur en önnur eingöngu vegna huglægs mats kaupandans á gæðum vörunnar. Vörumerki ferðaþjónustunnar hér á landi er nafnið Ísland og allt sem nafninu tengist. Náttúra Íslands er helsta aðdráttarafl ferðamanna samkvæmt margendurteknum skoðanakönnunum Ferðamálaráðs. Það má því segja að ferðamenn leggi huglægt mat á náttúru Íslands sem er byggt á ímyndinni sem þeir hafa af landinu áður en þeir taka ákvörðun um að koma hingað.

Hvalaskoðunarferðir við strendur Íslands með innlenda og erlenda ferðamenn byggja afkomu sína á huglægum náttúruvæntingum gesta. Fjöldi gesta í hvalaskoðunarferðum hefur aukist úr nánast engu í rúmlega sextíu þúsund á einungis tíu árum. Aukningin skýrist fyrst og fremst af eftirspurn eftir slíkum ferðum sem bjartsýnir ferðaþjónustuaðilar hafa verið duglegir að sinna. Hvalir finnast við strendur landsins í öllum landshlutum en þekktustu hvalaskoðunarstaðirnir hér við land eru Skjálfandi, Faxaflói og Breiðafjörður.

Árið 1898 var stofnsett fyrsta verndarsvæði villtra spendýra í Suður-Afríku. Verndarsvæðið var stækkað nokkrum sinnum fram til ársins 1926 þegar Krüger-þjóðgarðurinn var formlega stofnaður á sama stað. Í dag er Krüger-þjóðgarðurinn þekktasta griðland villtra spendýra í heimi og er heimsóttur af milljón ferðamönnum árlega. Handan þjóðgarðsgirðingarinnar eru landareignir í einkaeign þar sem veiðileyfi á sömu dýrategundir eru seld dýrum dómum. Þrátt fyrir að sportveiði spendýra í útrýmingarhættu sé stunduð í Suður-Afríku er sjaldan minnst á hana á neikvæðum nótum. Ástæðan fyrir því að veiði viðgengst án mótmæla á alþjóðavettvangi er sú að Suður-Afríka hefur tryggt verndun spendýra til framtíðar með óyggjandi hætti með stofnunn þjóðgarða og friðlanda.

Stofnun friðlands fyrir hvali kæmi Íslandi í fararbrodd þjóða um verndun hvala sem mundi að miklu eða öllu leyti vega upp neikvæða umfjöllun sjálfbærrar veiði.

Eftir Stefán Helga Valsson

Höfundur er leiðsögumaður og ferðamálafræðingur.


mbl.is 26 þjóðir fordæma hvalveiðar Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband