Starfsheiti og starf leiðsögumanna verði lögverndað

Mikilvægt er að löggilda starf og starfsheiti fagmenntaðra leiðsögumanna neytendum til hagsbóta. Þetta hefur verið gert í fjölmörgum löndum en Ísland er eftirbátur. 

Nýlega féll dómur í borinni Fíladelfíu í Bandaríkjunum um rétt borgarinnar að skikka þá sem leiðsegja þar til að taka próf í faginu, skrásetja sig og fá leyfi. Ráðstöfunina töldu sumir aðför að tjáningarfrelsi og stefndu borginni. En dómurinn komst að hinu gagnstæða. Rétt þykir að þeir sem fá greitt fyrir að veita upplýsingar um borgina hafi staðreyndir á hreinu.

Þrír skólar á Íslandi bjóða uppá fagmenntun fyrir leiðsögumenn og koma til með að útskrifa um 160 manns fyrir næsta sumar.

Því miður ruglar greinarhöfundur saman fagmenntuðum leiðsögumönnum annars vegar og sögumönnum hinsvegar. Jónas Freydal leiðsegir fólki en hann hefur aldrei gefið sig út fyrir að vera leiðsögumaður heldur sögumaður.

Leiðsögumaður og sögumaður er tvennt ólíkt rétt eins og leiðbeinandi er ekki sama og kennari og hjúkrunarfræðingur er ekki sama og læknir. Þetta eru aðskilin störf þótt vinnan fari fram á sama stað og unnið sé með sömu skjólstæðingum.

Draugaferðir eiga sér stað útum allan heim bæði með fagmenntuðum leiðsögumönnum og fólki sem ekki hefur aflað sér menntunar í leiðsögn. Draugagöngur ganga útá að segja sögur og skemmta þátttakendum og í raun ekkert annað. Hefðbundnar ferðir með fagmenntuðum leiðsögumönnum ganga útá að veita gestum sannar og faglega framreiddar upplýsingar um land og þjóð.

Sögumenn í draugagöngum eiga ekki að hlýta ritskoðun frekar en höfundar skáldsagna.

Bjarni Harðarson segir í bloggi við sömu frétt að sögur af látnum séu vandmeðfarnar. Því er ég hjartanlega sammála. Sjálfsagt er að sýna látnum og aðstandendum þeirra tilhlýðilega virðingu -  hvortheldur sem fagmenntaður leiðsögumaður eða sögumaður á í hlut.


mbl.is Falsaðar sögur af látnum ekki líðandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sæll Stefán og aðrir góðir hálsar:

Í siðareglum Félags leiðsögumanna eru þessi ákvæði:

„Leiðsögumaður skal forðast orð og athafnir sem kasta rýrð á land okkar, þjóð og lífsvenjur.  Leiðsögumaður skal ávallt miðla upplýsingum um land og þjóð á grundvelli staðreynda og haldbærrar þekkingar sinnar.  Hann skal skýra satt og rétt frá því sem fyrir augu ber og sýna óhlutdrægni í starfi.  Forðast ber að særa þjóðernisvitund manna sem og að mismuna farþegum.  Veita ber farþegum réttar upplýsingar um þjónustu“. (8.gr.) Heimild: http://www.touristguide.is

Þessi uppákoma ætti að vera Félagi leiðsögumanna sérstök hvatning að sækja enn um löggildingu starfsheitisíns leiðsögumanna enda er mjög mikils vert að fag- og stéttarfélag geti varist umdeilda samkeppnisaðila sem starfa undir sama starfsheiti og varpa rýrð á menntaða og reynda fagmenn sem hafa átt farsælan feril í störfum sínum sem góðir leiðsögumenn.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 5.12.2009 kl. 12:07

2 Smámynd: Stefán Helgi Valsson

Takk fyrir þetta innlegg mosi,

Jónas Freydal hefur aldrei gefið sig út fyrir að vera fagmenntaður leiðsögumaður heldur sögumaður.

Siðareglur Félags leiðsögumanna eru sjálfsagður hlutur enda hafa allar fagstéttir sem vilja láta taka mark á sér siðareglur.

Hinsvegar þykir mér þurfa að endurskoða einmitt þessa siðareglu sem þú bendir á vegna þess að hana má túlka sem ritskoðun, þ.e.a.s að leiðsögumenn skuli forðast að kasta rýrð á land okkar, þjóð og lífsvenjur. Semsagt undanskilja sumt en annað ekki.

Hugsum okkur fagmenntaðan leiðsögumann einhverstaðar annarsstaðar í heiminum eins og til dæmis í Suður-Afríku sem ekki talar um aðskilnaðarstefnuna, eða fagmenntaðan leiðsögumann í fangabúðum í Þýskalandi þar sem ekki er minnst á helförina. Ýkt dæmi en þú skilur hvað ég er að fara - ekki satt?

Stefán Helgi Valsson, 5.12.2009 kl. 12:23

3 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Sæll, Stefán

Ég vísa í mína eigin þanka um þessa sömu umfjöllun

http://emilkr.blog.is/blog/emilkr/entry/988851/

Þar kemur m.a. fram:

"Hvað fyrirtækið Draugaferðir varðar þá er á heimasíðu þeirra hlekkur sem heitir "jobs" (atvinna) og þar bjóða þeir velkomna til vinnu, þá sem hafa áhuga á starfi þar sem karlar og konur varpa sér að fótum þeirra og allir eru tilbúnir að bjóða þeim í glas. Engar kröfur eru gerðar um menntun og reynzlu en fólk beðið að taka fram hve lengi það það hyggst dvelja á Íslandi. [...]Þetta segir mér nóg um faglegan metnað Draugferða og undrar mig ekki hina ljótu sögu Þórs Magnússonar."

Við skulum ekkert vera að gera lítið úr mikilvægi fagmennskunnar, Stefán.  Leiðbeinandi er ekki sama og kennari, það er rétt. Hann má einmitt ekki kalla sig kennara vegna þess að hann hefur ekki til þess menntun og þ.a.l. ekki réttindi þó hann sé tímabundið fenginn til að gegna starfi kennarans. Hann víkur hins vegar fáist fagmenntaður aðili til kennslunnar. Samanburður þinn við lækna og hjúkrunarfræðinga á alls ekki við í þessu tilviki því þar er um tvær fagstéttir að ræða sem gegna ólíkum störfum þó á sama sviði sé.

Emil Örn Kristjánsson, 5.12.2009 kl. 12:33

4 Smámynd: Alexandra Briem

Ok, nú er ég ekki að reyna að vera leiðinlegur, en mér finnst bara alls ekki eins og það sé mikilvægt að lögvernda starfsheitið leiðsögumaður.

Hver sem er sem ekki þjáist af sviðsótta eða mikill feimni almennt, og þekkir vel tiltækið svæði getur verið leiðsögumaður á því. Auðvitað er hægt að gera það misvel, vera mis vel skipulagður og segja mis skemmtilega frá, og vera misjafnlega fær í að höndla vandamál sem upp geta komið, en í grundvallar atriðum er þetta ekki þess háttar starf að það þurfi einhverja gríðarlega sérmenntun, eða að það sé stórmál hver fær að kalla sig því.

Svona svipað og starfsheitið Sögumaður. Hverjum þætti það góð hugmynd að lögvernda það starfsheiti?

Alexandra Briem, 5.12.2009 kl. 13:19

5 Smámynd: Stefán Helgi Valsson

Takk fyrir þitt innlegg Emil,

Það er gott að vera ósammála um sumt en við erum sem betur fer 100% sammála um að starf og starfsheiti leiðsögumanna ætti að vera lögverndað.

Stefán Helgi Valsson, 5.12.2009 kl. 13:36

6 Smámynd: Stefán Helgi Valsson

Sæll Andrés,

Takk fyrir að leggja orð í belg. Of margir því miður hafa minnstu hugmynd um starf leiðsögumanna og mikilvægt hlutverk þeirra í íslenskri ferðaþjónustu.

Það er löngu tímabært að lögvernda bæði starfsheiti og starf leiðsögumanna en því miður hafa stjórnálamenn ekki sýnt því nægilegan áhuga hingað til.

Fagmenntaðir leiðsögumenn leggja hart að sér í leiðsögunáminu sem er eins árs nám eftir stúdentspróf. Þeim þykir súrt að hver sem er geti kallað sig leiðsögumann og gengið í laus störf til jafns við þá sem ekki hafa tileinkað sér námsefnið.

Ég bendi á að til er lögverndað starfsheiti leiðsögumanna hafna og leiðsögumanna með hreindýraveiðum þar sem hvorki er krafist stúdentsprófs né margra mánaða skólagöngu.

Starf leiðsögumanna er eitt vanmetnasta starfið í ferðaþjónustunni með tilliti til ábyrgðar og hlutverki í upplifun ferðamanna. Ennfremur eru leiðsögumenn flestir lausráðnir og hafa þar af leiðandi ekkert starfsöryggi. Fyrir þessi liðlegheit fá þeir lægri laun en starfsmenn á kassa í matvörubúð.

Þú ert því miður ekki einn um að hafa þessa skoðun á störfum leiðsögumanna og kannski ekki nema von. Leiðsögumenn eru ósýnilegir öllum stundum nema þegar eitthvað bjátar á eins og þegar slys á fólki ber að höndum.

Þvert á það sem fólk telur sig vita um starf leiðsögumanna felur það í sér mikla ábyrgð á lífi og limum fólks, ábyrgð á upplifun ferðamanna á ferð um landið.

Leiðsögumenn þurfa að kunna fyrstu hjálp, kunna að bregðast við ýmsum vandamálum sem upp koma, þekkja siðareglur Félags leiðsögumanna, kjarasamninga og fleira og fleira. Þá er ótalin þekking um náttúru Íslands fánu og flóru, íslenska samfélagið, íslenska ferðaþjónustu, hópstjórn og fleira og fleira.

Þú ættir að kynna þér námið.

Stefán Helgi Valsson, 5.12.2009 kl. 13:56

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Margar sögur fara af leiðsögumönnum í starfi sínu þar sem reynt hefur á reynslu þeirra og þekkingu hvernig bregðast eigi við óvæntum viðburðum og uppákomum. Þar er ekki alltaf víst að þeir sem ekki hafa menntað sig og þjálfað hafi brugðist rétt við.

Sjálfsagt geta margir greint frá merkilegum frásögnum í þessu sambandi. Oft höfum við jafnvel þurft að sinna sálgæslu einstakra ferðamanna jafnvel heils hóps og telja kjark í alla á ögurstundu.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 7.12.2009 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband