Alþjóðlegur dagur leiðsögumanna 21. febrúar 2009
23.2.2009 | 02:45
Fagmenntaðir leiðsögumenn og nemar í leiðsöguskóla Íslands leiðsögðu 85 erlendum gestum um miðbæ Reykjavíkur laugardaginn 21. febrúar á Alþjóðlegum degi leiðsögumanna.
Framtaki leiðsögumanna var allstaðar vel fagnað en atburðurinn var auglýstur á upplýsingamiðstöðvum, á nær öllum hótelum og á helstu gistiheimilum í Reykjavík.
Skúli Möller leiðsegir í fyrstu ferð dagsins.
Tilgangurinn með Alþjóðlegum degi leiðsögumanna, sem fyrst var haldinn hátíðlegur árið 1990 að undirlagi Alþjóðasambands leiðsögufélaga (WFTGA), er að auka sýnileika fagstéttarinnar og vekja athygli á fagmenntun leiðsögumanna.
Ursula E. Sonnenfeld (lengst til vinstri) og Friðrik Rúnar Guðmundsson (lengst til hægri), ásamt nokkrum gestum á Alþjóðlegum degi leiðsögumanna 2009.
Nær helmingur þeirra sem naut leiðsagnar þennan dag mætti strax í fyrstu ferð klukkan ellefu um morguninn en síðan voru ferðir á um hálftíma fresti til klukkan þrjú.
Leiðsagt var á ensku, frönsku, þýsku og skandinavísku. Gengið var frá Hallgrímskirkju, um Þingholt / Skólavörðustíg og niður í miðbæ og á leiðinni létu leiðsögumennirnir ljós sitt skína gestunum til ánægju og fróðleiks.
Stysta gönguferðin þennan dag tók 40 mínútur og sú lengsta tvær klukkustundir en tímalengdin miðaðist við þarfir og óskir gesta.
Skúli Möller og John C. Spencer á Alþjóðlegum degi leiðsögumanna 2009.
Veðrið um morguninn var þokkalegt en strax uppúr hádegi tók að rigna og hvessa enda hafði Veðurstofa Íslands gefið út stormviðvörun. Væntanlega hefur veðrið haft einhver áhrif á þátttöku gesta eftir hádegi en leiðsögumennirnir kipptu sér ekki upp við aðstæður enda flestir vel búnir.
Skúli Möller, Friðrik Rúnar Guðmundsson, Elín Sigríður Konráðsdóttir og Stefán Helgi Valsson á Alþjóðlegum degi leiðsögumanna 2009.
Leiðsögumennirnir Elín Sigríður Konráðsdóttir, Friðrik Rúnar Guðmundsson, Hólmfríður Gísladóttir, John C. Spencer, Skúli Möller, Steingrímur Gunnarsson og Ursula E. Sonnenfeld sáu um leiðsögnina þennan dag. Einnig tveir nemar frá Leiðsöguskóla Íslands þau Guðrún Þorkellsdóttir og Ólafur Tryggvi Magnússon sem bæði stóðu sig með ágætum. Guðjón Jensson leiðsögumaður kom við eftir hádegi og bauð sig fram í leiðsögn sem síðan reyndist ekki þörf fyrir vegna þess að það voru nógu margir leiðsögumenn á staðnum. Stefán Helgi Valsson leiðsögumaður sá um skipulagningu.
Elín Sigríður Konráðsdóttir leiðsagði fámennasta hópnum, þessari konu, sem heitir Annika og er frá Muenchen í Þýskalandi.
Ólafur Tryggvi Magnússon nemi í Leiðsöguskóla Íslands spreytti sig á leiðsögn um Reykjavík og stóð sig vel. Ólafur starfar nú sem grafískur hönnuður en hlakkar til leiðsegja í sumar eftir útskriftina í maí.
Leiðsögumennirnir Friðrik Rúnar Guðmundsson, Skúli Möller, Guðrún Þorkellsdóttir (nemi í Leiðsöguskóla Íslands) ásamt gestum.
Stefán Helgi Valsson, verkefnisstjóri Alþjóðlegs dags leiðsögumanna á Íslandi, þakkar þeim sem lögðu hönd á plóginn í þessu verkefni kærlega fyrir framlag þeirra til verkefnisins. Án aðkomu þeirra hefði þessi atburður aldrei orðið. Kærar þakkir fá leiðsögumennirnir sem tóku þátt. Einnig Hrönn Vilhelmsdóttir og Þórólfur Antonsson eigendur Kaffi Loka á Lokastíg þar sem leiðsögumenn og gestir fengu afdrep og salernisaðstöðu, og Ursula Spitzbart sem aðstoðaði við kynningu atburðarins.
Anna Karlotta Stefánsdóttir og Ursula Spitzbart aðstoðuðu við kynningarmál.
Athugasemdir
Ég geri ráð fyrir að sú stutta sé dóttir þín Stefán. Voða sæt er hún og greinilega upprennandi leiðsögumaður
Anna Karlsdóttir, 23.2.2009 kl. 23:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.