Hefjum hjólreiðar til vegs og virðingar, tækifæri í ferðaþjónustu

Frábært framtak að útbúa hjóla- og göngukort. Þetta segi ég sem fyrrverandi félagi í Hjólreiðafélagi Reykjavíkur. Undanfarin ár hef ég talað fyrir nýsköpun í ferðaþjónustu sem miðast að því að gera hjólreiðarstíg umhverfis landið sem nýtist bæði innlendum og erlendum ferðamönnum.

Hjólreiðastígur umhverfis landið þýðir nýtt tækifæri í ferðaþjónustu á Íslandi.


mbl.is Nýtt kort fæst gefins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýsi framleitt úr innfluttu hráefni

Til hamingju Lýsi! Gott að heimurinn er að uppgötva lýsið sem langamma sagði allra meina bót. Furðulegt þó að fiskveiðiþjóðin mikla þurfi að flyta inn hráefni í lýsi. Það væri gaman að fá að vita ástæðuna fyrir því.


mbl.is Lýsi hf. hefur tvöfaldað útflutninginn á þessu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirmaður landvarða verður að sýna gott fordæmi

Nýráðinn framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs hefði betur stutt landvörðinn í þessu máli. Umhverfisstofnun menntar landverði og kynnir fyrir þeim gildandi lög og reglugerðir, þ.á.m. lög um náttúruvernd.

Lögum samkvæmt er utanvegaakstur bannaður.

Yfirmaður landvarðar hefði átt að ganga fram fyrir skjöldu með góðu fordæmi og styðja landvörðinn.

Ætla mætti að landvörðurinn og nýráðinn framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs séu í sama liði - en svo er greinilega ekki.

Mun nýráðinn framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs hunsa önnur lög og reglugerðir?

Í lögum um náttúruvernd 1999 nr. 44 segir þetta í 17. gr. Akstur utan vega.
Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin.


mbl.is Stóð 40 tonna bíla að utanvegarakstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðsögumaður eða fararstjóri?

Mér finnst mikilvægt að þeir sem ræða um málefni leiðsögumanna geri sér grein fyrir því að starf leiðsögumanna og fararstjóra er ekki það sama.

Það skiptir miklu máli fyrir fagmenntaða leiðsögumenn að vera kallaðir sínu rétta nafni. Kennari sem dæmi vill ekki láta kalla sig skólaliða. Læknir vill ekki láta kalla sig sjúkraliða og svo framvegis.

Yfir 1.000 manns hafa útskrifast frá Leiðsöguskóla Íslands sem fagmenntaðir leiðsögumenn.

Hin formlega skilgreining á starfsheiti leiðsögumanna (tourist guide) annars vegar og fararstjóra og annarra hins vegar, og samþykk er af FEG (European Federation of European Tourist Guide Associations) og WFTGA (World Federation of Tourist Guide Associations), er þessi:

http://www.feg-touristguides.org/pdf/imprimir/documentos/cen.pdf


Fjöldi erlendra ferðamanna og starfsfólks á Íslandi kemur sumum á óvart

Landið liggur undir skemmdum og fjöldi ferðamanna er orðinn slíkur að það er ekki þverfótað fyrir þeim. Nýlega sagði erlendur ferðamaður frá því í viðtali í Kastljósinu að fjöldi erlendra ferðamanna í miðbæ Reykjavíkur hefði komið sér á óvart.

Kannski kemur það einhverjum á óvart að rúmur helmingur starfsfólks í ferðaþjónustu á Íslandi er af erlendu bergi brotið. Væntanlega þyrfti að loka mörgum gististöðum víðsvegar um landið ef ekki væri fyrir harðduglegt erlent starfsfólk sem kemur hingað til sumarvinnu. En er þetta ástand sem Íslendingar óska innlendri ferðarþjónustu?


mbl.is Uppselt á ferðamannastaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak hjá Kynnisferðum

Þessi ákvörðun Kynnisferða er frábært framtak! Reyndar er fyrirtækinu málið skylt en í fyrra lést ferðamaður á þerra vegum í fjörunni, þrátt fyrir að leiðsögumaðurinn í ferðinni hefði varað fólk við hættunni.

Viðvörunarskilti gagnast einkum þeim sem koma á ströndina á eigin vegum og án fagmenntaðs leiðsögumanns sem varar við hættunni.

Sjálfur kom ég í fyrra að manni á ströndinni sem búinn var að klæða sig úr fötunum og ætlaði að stinga sér til sunds.

Hressandi sjóbað í Reynisfjöru


mbl.is Vilja kosta skilti í Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignarnám á landi fyrir ferðaþjónustu

Athyglivert að landið undir Bakkafjöruhöfn verður tekið eignarnámi. En hvað með merka ferðamannastaði eins og t.d. Geysi og Kerið? Samningar hafa staðið um langt skeið milli eigenda landsins umhverfis Geysissvæðið en hafa ekki að mér vitanlega enn gengið eftir. Eigendur vilja e.t.v. meira fyrir landið en ríkið vill greiða. Og hvað um Kerið, einn helsta stoppistaðinn á "Gullhringnum"? Verður Geysissvæðið og Kerið tekið eignarnámi óski eigendur eftir of háu verði?
mbl.is Land undir Bakkafjöruhöfn verður tekið eignarnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Manngerðir hellar á Íslandi eru merkilegir og þá ber að vernda

DSC_4519_Laugarvatnshellir_nyttskiltiJuni2008 Á Íslandi eru um 200 manngerðir hellar, ef ég man rétt. Þessar menningarminjar þarf vissulega að vernda og halda á lofti um ókomna framtíð. Íslendinga sjálfir mundu njóta góðs af því ef það yrði gert sem og erlendir ferðamenn. Það gladdi mig að sjá nýtt upplýsingaskilti á íslensku og ensku við Laugarvatnshelli sem sett var upp um daginn.


mbl.is Merkar menjar um mannavist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvænt lokun Kersins kemur illa við ferðaskrifstofur á miðju sumri

„Lokun Kersins kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum og er í hróplegu ósamræmi við kynningu okkar á Íslandi,“ segir Ólafía Sveinsdóttir, deildarstjóri skipadeildar hjá Atlantik. „Við erum varla búin að átta okkur á þessu ennþá en það er ljóst að þessi lokun kemur sér einkar illa á miðju ferðamannatímabili vegna þess að Kerið er inni í öllum okkar ferðaáætlunum á leiðinni að Gullfossi og Geysi.“  

Í sumar eru 70-80 skip á vegum Atlantik í Reykjavík en að meðaltali eru um 1.000 gestir um borð utan áhafnar. Ætla má að 6-700 gestir af hverju skipi fari svokallaðan „Gullhring“ sem er leiðin frá Reykjavík um Þingvelli, Gullfoss og Geysi með viðkomu í Kerinu. Ljóst er að um verulegan fjölda fólks er að ræða. Ólafía bendir á að Atlantik geri áætlanir langt fram í tímann og þar af leiðandi er búið að gera ráð fyrir því að stoppa við Kerið. „Eigendur Kersins taka þessa ákvörðun en þetta er mjög illa gert á miðju sumri. Það hefði mátt gera þetta með meiri fyrirvara, t.d. í lok sumars,“ segir Ólafía. 

Ólafía segist hrædd um að verði gjald innheimt af ferðamönnum fyrir að skoða Kerið, eins og eigendur þess fóru fram á við tvær ferðaskrifstofur, muni aðrir staðir fylgja í kjölfarið. Ennfremur bendir Ólafía á að mismunun sé fólgin í því að banna rútum að stoppa við Kerið en leyfa enkabílum það, eins og eigendur Kersins ætlast til. „Ég kvíði því að gera okkar viðskiptavinum grein fyrir lokun Kersins,“ segir Ólafía.

„Hingaðtil höfum við verið stolt af því að sýna erlendum ferðamönnum þetta sérstaka náttúrufyrirbæri sem Kerið er. Það verða vonbrigði og við verðum að geta gefið haldgóða skýringu á því hvers vegna ekki er hægt að stoppa þarna eins og ráð var gert fyrir.“  

Hvað varðar tímasetningar skiptir það miklu máli að stoppa við Kerið. Verði ekki lengur hægt að stoppa þar riðlast tímasetning allra ferða sem kostar mikla vinnu að endurskipuleggja. „Lokun Kersins þýðir að við þurfum að taka eina náttúruperlu út úr Gullhringnum sem er í hróplegu ósamræmi við kynningu okkar á Íslandi.“ 

Ferðamannastaðir og náttúrperlur séu í eigu opinberra aðila

„Mér finnst rangt að náttúruperla eins og Kerið sé í einkaeigu,“ segir Ólafía. „Við hjá Atlantik erum að sjálfsögðu fylgjandi því að vel sé gengið um ferðamannastaði og náttúruperlur og að þeim sé haldið vel við eins og gert hefur verið við Kerið.“  Ólafía skorar á opinbera aðila að sjá um viðhald umhverfisins við Kerið og annarra vinsælla ferðamannastaða og að tryggja aðgengi að náttúruperlum á Íslandi.  

Hildur Jónsdóttir, eigandi ferðaskrifstofunnar Farvís, segir ákvörðun Kerfélagsins koma sér mjög illa á miðju sumri því fyrirtæki hennar sé búið sé að auglýsa Kerið sem sérstakt stopp á Gullhringnum. Hildur tekur undir sjónarmið Ólafíu að það sé í verkahring opinberra aðila að tryggja aðgengi og viðhald ferðamannastaða.

Þessi grein birtist fyrst á vefsíðu Félags leiðsögumanna


SAF fordæmir arðsemiskröfu eigenda Kersins

Eigendur Kersins vilja njóta arðs af eign sinni og allir rútufarþegar eru velkomnir svo framarlega sem greitt er fyrir þá. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) sem send var til félagsmanna í tölvupósti í gær.  

Í tilkynningu SAF segir að viðræður talsmanns eigenda Kerfélagsins og fulltrúa tveggja ferðaskrifstofa fyrst og fremst hafa snúist um arðsemiskröfu eigenda en ekki náttúruspjöll eins og eigendur Kersins lýsa nú yfir. Að því að fram kemur í tilkynningunni vekur þetta mál nokkra furðu.  Í fyrsta lagi er kveðið á um það í náttúruverndarlögum að almenningi sé heimil för um landið í lögmætum tilgangi.  Í öðru lagi er undarlegt að mismuna ferðamönnum eftir því hvort þeir eru í rútu eða á einkabíl. Í þriðja lagi hefur Vegagerðin og Ferðamálastofa staðið straum af kostnaði við  bílastæði  við Kerið,  göngustíga  og uppsetningu upplýsingaskilta og er Kerið kynnt sem áfangastaður á heimasíðu Vegagerðarinnar. 

Af framansögðu má álykta að SAF telji eigendur brjóta gegn náttúruverndarlögum og jafnræðisreglu. Auk þess hafi staðurinn notið góðs af opinberu fé og ætti því að vera opinn almenningi.  

Kerfélagið, eigandi Kersins, setur upp bannskilti á íslensku og ensku við Kerið 15. júlí næstkomandi þar sem fram kemur að hópbifreiðum sé óheimilt að stoppa.

 

Fyrr á þessu ári lokuðu eigendur Hindisvíkur á Vatnsnesi bílastæði við hinn fornfræga selaskoðunarstað með keðju og bannskilti með það fyrir augum að fyrirbyggja að bílar, einkum hópferðabifreiðar gætu stoppað. Lesið fréttina, smellið hér.

  

Þessi grein birtist fyrst á vefsíðu Félags leiðsögumanna


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband